Leigja níu Dreamliner þotur í áætlunarflug milli Evrópu og Bandaríkjanna

Hluti af þeim Dreamliner þotum sem Norwegian hefur verið með fara nú yfir til Norse Atlantic Airways. MYND: NORWEGIAN

Hið nýstofnaða Norse Atlantic Airways ætlar að fylla skarð Norwegian í áætlunarflugi yfir Norður-Atlantshafið. Og nú þegar hefur þetta verðandi lágfargjaldaflugfélag leigt níu Boeing Dreamliner þotur af flugvélaleigunni AerCap samkvæmt frétt Flight Global. Þoturnar tilheyrðu áður Norwegian.

Þetta eru ekki einu tengslin við norska flugfélagið því Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri Norwegian, er einn stærsti hluthafinn í Norse Atlantic Airways.

Núverandi stjórnendur Norwegian hafa gefið út að félagið muni ekki hefja áætlunarflug yfir Norður-Atlantshafið á ný heldur einbeita sér að farþegaflugi innan Evrópu. Þessi stefnubreyting er að miklu tilkomin vegna þrýstings frá norskum yfirvöldum. Því í tengslum við opinberar lánveitingar til Norwegian, vegna heimsfaraldursins, óskuðu norskir ráðamenn eftir því að viðskiptamódel Norwegian yrði einfaldað.