MAX þotan aftur í loftið í dag

MAX þotan Mývatn er í eigu flugvélaleigunnar SMBC Aviation Capital. Icelandair fékk þotuna afhenta 12. febrúar 2019, einu mánuði áður en allar flugvélar af þessari tegund voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa. Mynd: SMBC Aviation Capital

Icelandair tók eina af Boeing MAX flugvélum sínum í notkun í gær eftir nærri tveggja ára kyrrsetningu. Flaug þotan, sem ber heitið Mývatn, með farþega félagsins héðan til Kaupmannahafnar og aftur til Keflavíkurflugvallar. Í dag verður þotan nýtt í áætlunarferð Icelandair til Parísar.

Mývatn fær svo tveggja daga hvíld en heldur á ný til Kaupmannahafnar á föstudaginn samkvæmt bókunarsíðu Icelandair.

Líkt og Túristi fjallaði um í gær þá gæti hið ört hækkandi olíuverð flýtt fyrir því að Icelandair taki í notkun fleiri MAX þotur. Þær eru nefnilega mun sparneyttari en gömlu flugvélarnar í flota Icelandair.

Ennþá hefur Icelandair hins vegar aðeins sótt tvær af sex MAX þotum sínum úr geymslu og nýlegar endurráðningar flugmanna eru bundnar við gömlu vélarnar, Boeing 757 og Boeing 767.