MAX þoturnar fljúga fyrst með starfsmenn og stjórnendur

Ein af Boeing 737MAX þotum Icelandair mun fljúga farþegum félagsins til Kaupmannahafnar á mánudag. Þetta verður í fyrsta sinn í nærri tvö ár sem þoturnar verða nýttar í áætlunarflug. MYND: BOEING

Á næsta mánudag verða hinar umtöluðu Boeing MAX þotur nýttar í áætlunarflug á vegum Icelandair á nýjan leik. Þá verða liðin nærri tvö ár frá því að flugvélarnar flugu síðast með farþega félagsins.

Upphaflega var ætlunin að stjórnendur Icelandair færu með í fyrsta flugið en vegna sóttvarnarreglna á landamærum, bæði hér á Íslandi og í Danmörku, var það ekki mögulegt að því segir í svari frá flugfélaginu.

Stjórnendur þess og aðrir starfsmenn munu aftur á móti fara í undirbúningsflug innanlands fyrir áætlunarflugið sjálft.

Að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, þá liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær þessi flugferð verður en lagt verður í hann þegar öllum reglubundnum undirbúningi hefur verið lokið. Bæði í flugskýli Icelandair við Keflavíkarflugvöll og eins í þjálfunarsetri félagsins í Hafnarfirði. Til viðbótar verða farin prófunarflug án farþega að kröfu flugmálayfirvalda.