Rúmlega 1,5 milljarður í innviði og náttúruvernd á ferðamannastöðum

Nú er unnið að uppbyggingu við fjölda ferðamannastaða um allt land. Kort af vef Ferðamálastofu

Úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum fór fram í gær. Úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða fengust 764 milljónir í ár og 807 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

„Mikill árangur hefur náðst frá síðustu úthlutun í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2020 var metár með tilliti til umfangs framkvæmda á ferðamannastöðum. Sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar gerði þá kleift að flýta framkvæmdum, sem ekki hefðu annars verið á verkefnaskrá síðasta árs,“ segir í tilkynningu á vef Ferðamálastofu.

Auka framlag vegna heimsfaraldursins

Úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða verða veittir styrkir til fimmtíu og fjögurra verkefna út um allt land. Það er aukning á milli ára sem skrifast á aukna fjárheimild sjóðsins um tvö hundruð milljónir króna. Sú viðbót er hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 að því segir í tilkynningu.

Hæstu styrkirnir að þessu sinni eru styrkir til að hanna og byggja uppgöngu- og hjólastíg frá Svínafelli yfir í þjóðgarðinn í Skaftafelli, bygging þjónustuhúss fyrir ferðamenn við Hengifoss og lokastyrkur til uppbyggingar við Þrístapa. 

Alls fá sautján verkefni styrki sem eru hærri en tuttugu milljónir króna. Þar má sem dæmi nefna byggingu skógarhúss við Sólbrekkuskóg, áfangastaði við Tjörnes, stígagerð og brúun í Glerárdal og flotbryggju í Drangey. 

Áttatíu og fimm ný verkefni

Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til þriggja ára til svokallaðrar Landsáætlunar. Áttatíu og fimm ný verkefni bætast við þá áætlun að þessu sinni og samtals eru þau þá rúmlega eitt hundrað talsins. Í tilkynningu á vef Ferðamálastofu segir að þar sé helst að nefna fyrirhugaða uppbyggingu ofan við Öxarárfoss með stórbættu aðgengi í þinghelgina, auk þess sem lokið verður við göngupalla við Dettifoss sem auka öryggi og aðgengi til muna.