Samkeppni í flugi til Barcelona í sumar

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling er ekki lengur eitt um flugferðirnar milli Íslands og höfuðstaðs Katalóníu í sumar.

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. Mynd: Lucrezia Carnelos / Unsplash

Nú fyrir páska er á dagskrá fyrsta áætlunarferð ársins á vegum Vueling hingað til lands. Munu þotur félagsins fljúga tvær ferðir milli Keflavíkurflugvallar og El Prat í Barcelona í kringum páskahátíðina. Í byrjun maí hefst svo formlegt áætlunarflug og gerir Vueling ráð fyrir að fljúga frá héðan til Barcelona öll mánudags, fimmtudags og laugardagskvöld fram í lok október.

Nú hefur Icelandair einnig bætt Barcelona við áætlun sína og samkvæmt bókunarvef félagsins verður í boði ein ferð í viku frá 12. júní og fram í september. Flogið verður á laugardögum.

Icelandair hafði ráðgert að hefja flug til Barcelona fyrir síðasta sumar en borgin hefur af og til verið hluti af sumaráætlun félagsins. Vegna heimsfaraldursins varð ekkert af ferðunum í fyrra.

Þess ber að geta að á heimasíðu Norwegian er einnig til sölu flug milli Íslands og Barcelona. Fargjöldin eru hins vegar mjög há og þess háttar verðlagning er oft vísbending um að viðkomandi flugleið verði felld niður.