Tekjurnar drógust saman um 62 prósent

1,4 milljónir farþega áttu leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra. Árið 2019 voru farþegarnir 7,2 milljónir en 9,8 milljónir metárið 2018.

Það var 13,2 milljarða króna tap af rekstri Isavia í fyrra. Árið 2019 nam hagnaðurinn 1,2 milljörðum og hann var 4,2 milljarðar árið 2018.

Stærstan hluta af tekjusamdrætti Isavia samstæðu í fyrra má rekja til reksturs Keflavíkurflugvallar og Fríhafnarinnar samkvæmt því sem segir í tilkynningu. Farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 81 prósent frá 2019.

„Árið 2020 var afar krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 tók í raun völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia síður en svo varhluta af því. Á síðasta ári fór mikil orka í að tryggja fjármögnun og aðgang okkar að lausu fé ásamt því að standa vörð um sterka innviði félagsins,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu.

„Fjármálaráðherra, fyrir hönd eiganda okkar, tók ákvörðun í byrjun þessa árs að auka hlutafé í félaginu sem gerði okkur kleift að fara með uppbyggingaáform Keflavíkurflugvallar af stað á ný. Sú ákvörðun var afar mikilvæg, bæði fyrir samkeppnishæfni flugvallarins til framtíðar og möguleika okkar að komast út úr Covid-19, miðað við mismunandi sviðsmyndir en ekki síst fyrir erfitt atvinnuástand í nærsveitarfélögum Keflavíkurflugvallar,“ bætir Sveinbjörn við.