Þriðji hver Breti reiknar ekki með utanlandsferð í ár

Í dag þurfa Bretar sem fara úr landi að fylla út eyðublað fyrir brottför og fara í sóttkví við komuna heim. MYND: HEATHROW AIRPORT

Bresk stjórnvöld kynntu í lok febrúar áform sín um hvernig létta ætti á sóttvarnaraðgerðum í landinu. Liður í þeirri áætlun var að auðvelda ferðalög út í heim frá og með 17. maí. Það var þó gerður fyrirvari um að sú dagsetning gæti breyst og er ákvörðunar að vænta í málinu næstkomandi mánudag, annan í páskum.

Ný könnun á vegum Observer, sem Guardian greinir frá, sýnir þó að í dag gerir þriðjungur Breta ekki ráð fyrir að komast til útlanda í frí fyrr en árið 2022.

Niðurstöðurnar sýna einnig að 68 prósent svarenda könnunarinnar hafa ekki bókað neinar ferðir nú í sumar. Og stór hluti þeirra sem eiga pantaða reisu óttast að þurfa að afbóka eða endurskipuleggja ferðina.

Þess má geta að sú ákvörðun sem breska ríkisstjórnin tekur, varðandi ferðir til og frá landinu, nær eingöngu til Englands. Stjórnvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi taka sjálf ákvörðun um hvernig málum verður háttað á sínum svæðum.