Þriðji hver áfangastaður ennþá lokaður

Ísland telst að hluta til lokað í nýrri í samantekt ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar eru landamæri fimmtán Evrópuríkja hins vegar sögð alveg lokuð.

kaupmannahofn ferdamadur Morten Jerichau
Ferðamaður við Amalienborg í Kaupmannahöfn. Mynd: Visit Copenhagen

Þegar útbreiðsla Covid-19 hófst í lok síðasta vetrar þá voru teknar upp strangar sóttvarnaraðgerðir á landamærum víðast hvar í heiminum. Í maí í fyrra voru til að mynda þrír af hverjum fjórum áfangastöðum ferðamanna lokaðir samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá ferðamálaráði Sameinuðu þjóðanna.

Þar segir jafnframt að staðan hafi batnað síðastliðið sumar en ennþá geti ferðamenn ekki komist til 69 af þeim 217 áfangastöðum sem talning ferðamálaráðs SÞ nær til. Og meira en helmingur þeirra landa og svæða sem nú teljast lokuð hafa verið það í alla vega fjörutíu vikur.

Fimmtán Evrópuríki teljast algjörlega lokuð samkvæmt mati ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal eru Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Þýskaland, Ungverjaland, Noregur og Pólland.

Aftur á móti eru landamæri Íslands sögð lokuð að hluta til og það sama á við Ítalíu, Króatíu, Spán, Sviss, Svíþjóð og Grikkland.