Tvö af flugfélögunum á Keflavíkurflugvelli í greiðslustöðvun

czech airlines
Nú er Czech Airlines komið í greiðslustöðvun en félaginu hefur gengið illa að endurgreiða flugmiða að undanförnu og er komið í mikla skuld við farþega sína. Mynd: CSA

Ennþá liggur ekki fyrir hvort Norwegian flugfélagið kemst standandi út úr heimsfaraldrinum en félagið hefur verið í greiðslustöðvun frá því fyrir áramót. Norwegian hefur lengi verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og var á tímabili það flugfélag sem flutti flesta milli Íslands og Spánar.

Nú er framtíð annars flugfélags á Keflavíkurflugvelli í lausu lofti.

Stjórnendur flugfélagsins Czech Airlines hafa nefnilega óskað eftir greiðslustöðvun en þetta tékkneska flugfélag hefur verið það eina sem haldið hefur úti ferðum milli Íslands og Prag síðustu ár. Félagið gerir ráð fyrir að hefja þær ferðir á ný í vor.

Samkvæmt frétt Flight Global þá rekja stjórnendur Czech Airlines vanda flugfélagsins meðal annars til þeirra staðreyndar að tékkneska ríkið hefur ekki rétt því hjálparhönd síðustu misseri. Þrátt fyrir að flugfélagið sé það stærsta í Tékklandi.

Czech Airlines er í dag hluti af Smart Wings Group en stærsti eigandi þeirrar samsteypu er í eigu fjárfestingafélags í Hong Kong.