Tvö flugfélög taka upp þráðinn í flugi héðan til Riga

Frá og með deginum í dag er aftur hægt að fljúga beint héðan til Riga. MYND: GILLY / UNSPLASH

Það hafa engar áætlunarferðir milli Íslands og Lettlands verið á dagskrá frá því í byrjun febrúar þegar Air Baltic gerði hlé á ferðum sínum hingað frá Riga. Síðasta ferð Wizz Air hingað frá höfuðborg Lettlands var mánuði fyrr eða þann 6. janúar sl.

Í dag taka bæði þessi félög hins vegar upp þráðinn í áætlunarflugi frá Riga til Íslands. Þota Air Baltic flýgur frá Keflavík klukkan 15:10 og rétt fyrir kvöldmat er svo komið að brottför Wizz Air.

Samtals eru sæti fyrir 325 farþega í ferðunum tveimur en bæði flugfélögin notast við Airbus þotur. Air Baltic splunkunýjar Airbus A220 flugvélar og Wizz Air nokkurra ára gamlar Airbus A320.