Vilja hefja undirbúning að opnun Bandaríkjanna

Frá flugstöðinni í Portland í Oregon fylki. Í síðustu ákváðu stjórnendur Icelandair að hefja flug þangað á ný þann 1. júlí. MYND: PDX

Hægt verður að bjarga 225 þúsund störfum í bandarískum ferðageira með því að opna landið fyrir erlendum ferðamönnum á ný á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna þann 4. júlí nk. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem fjöldi samtaka í bandarískum flug- og ferðageira sendu ráðamönnum í Hvíta húsinu í gær.

Í bréfinu er óskað eftir samstarfi við stjórnvöld næstu fimm vikur um gerð áætlunar um hvernig staðið skuli að opnun landamæranna nú í sumar. Í dag er útlendingum eingöngu hleypt inn í Bandaríkin ef þeir eiga þangað brýnt erindi. Jafnframt er farið fram á neikvæðar niðurstöður úr nýju Covid-19 prófi.

Þessi skilyrði vilja ferðafrömuðir vestanhafs að verði afnumin og að allir þeir sem hafa verið bólusettir fyrir kórónaveirunni fái að ferðast óhindrað til og frá Bandaríkjunum. Það eigi bæði við bandaríska þegna og útlendinga.

Frá og með fimmtudeginum 26. mars mega bólusettir Bandaríkjamenn ferðast til Íslands. Og eftir að sú breyting var gerð fjölgaði Icelandair ferðum sínum til Bandaríkjanna og bætti við tveimur áfangastöðum þar í landi við sumaráætlun sína.


Uppfært: Í upphaflega útgáfu fréttarinnar sagði að bólusettir Bandaríkjamenn hefðu frá og með 18.mars fengið að komast inn fyrir íslensku landamærin. Hið rétta er að þessi breyting öðlast gildi 26. mars.