6 milljarðar króna söfnuðust í hlutafjárútboði Play

SKJÁMYND: PLAY

Lokuðu hlutafjárútboði hins verðandi flugfélags Play fór fram fyrr í þessu mánuði. Alls bárust bindandi áskriftir að 378.093.200 nýjum hlutum í félaginu á genginu 15,875 kr pr. hlut.

Heildarsöluverð hins nýja hlutafjár er því kr. 6.002.229.552 kr. samkvæmt því sem segir í frétt á vef Arctica Finance sem hafði umsjón með útboðinu.

Fyrir hlutafjárhækkunina höfðu 100 milljón hlutir verið gefnir út í Play og hlutirnir eru því í dag rétt rúmlega 478 milljónir talsins. Play birti lista yfir stærstu hluthafana í dag og þar kemur fram að Fea ehf, sem áður var eini eigandinn, á nú nærri 102 milljónir hluta.

Þess má geta að Arctica Finance var ráðgjafi þriggja lífeyrissjóða í tengslum við hlutafjárútboð Icelandair síðastliðið haust. Tveir af sjóðunum tóku þátt en sá þriðji, lífeyrissjóðurinn Birta, sat hjá. Birta er í dag annar stærsti hluthafinn í Play.

Arctica Finance hafði líka umsjón með skuldabréfaútboði Wow air haustið 2018 ásamt skandinavíska verðbréfafyrirtækinu Pareto. Eftir að útboðinu lauk var Arctica Finance, ásamt Arion banka, ráðið til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa Wow á markað. Af því varð þó ekki því flugfélagið varð gjaldþrota hálfu ári síðar.