700 milljónir króna í Vörðu

„Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu," segir í kynningu á áfangastaðastjórnun sem kynnt var í gær. Mynd: ATVINNUVEGARÁÐUNEYTIÐ

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, kynnti í gær nýja nálgun áfangastaðastjórnunar sem hlotið hefur heitið Varða. Til stendur að verja 300 milljónum króna í verkefnið í ár og svo 200 milljónum árin 2022 og 2023 samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón. 

Í þann hóp geta bæst fjölsóttir áfangastaðir en þá þurfa forráðamenn þeirra að skuldbinda sig til lengri tíma til að fylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulag.

„Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir,“ segir ferðamálaráðherra í tilkynningu.
 
Þar kemur fram að heitið Varða byggi á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru.