Allt innanlandsflug til Arlanda flugvallar

Hluti flugstöðvarinnar við Bromma flugvöll er splunkuný en verður mögulega ekki í notkun mikið lengur. MYND: SWEDAVIA

Bromma flugvelli í vesturhluta Stokkhólms verður lokað fyrr en áður hafði verið lagt upp með. Þetta tilkynnti sænska ríkisstjórnin í gær en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir að loka flugvellinum árið 2038. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær flugvellinum verður lokað starfshópur um lokunina á að skila tillögum í sumarlok.

Framtíð Bromma flugvallar hefur verið þrætuepli í sænskum stjórnmálum um langt skeið en annar stjórnarflokkurinn, Umhverfisflokkurinn, hefur lengi haft lokun hans á stefnuskrá sinni. Flokkar á hægri vængnum hafa þó barist fyrir tilveru flugvallarins.

Síðastliðið haust gáfu flugmálayfirvöld í Svíþjóð það hins vegar út að rekstur sérstakts innanlandsflugvallar væri ekki lengur fýsilegur kostur. Staðreyndin er nefnilega sú að innanlandsflug um Arlanda flugvöll, stærsta flugvöll Svíþjóðar, er mun meiri en um Bromma. SAS flugfélagið hefur til að mynda ekki notast við Bromma flugvöll í nærri fjörutíu ár.

Ekki liggur fyrir hvort ráðist verði í stækkun Arlanda flugvallar í tengslum við lokun Bromma. En kallað hefur verið eftir nýrri flugbraut við flugvöllinn og ódýrari lestarsamgöngum þangað frá miðborg Stokkhólms.