Aukning í innanlandsflugi í Kína

MYND: NILS NEDEL / UNSPLASH

Flugferðum milli kínverskra borga hefur fjölgað um tíu prósent nú í vor í samanburði við sama tíma í hittifyrra. Hins vegar hefur flugumferðin til og frá Kína dregist saman um 63 prósent. Þetta sýnir ný samantekt Flugleiðsögustofnunnar Evrópu, Eurocontrol.

Þar kemur líka fram að flug innan Bandaríkjanna hefur minnkað um þrjátíu prósent nú í lok apríl en alþjóðaflug frá bandarískum flugvöllum dregist saman um 43 prósent.

Samdrátturinn í Evrópu er þó mun meiri því flugferðum innan álfunnar fækkaði um 68 prósent. Flugumferðin til og frá Evrópu dróst litlu minna saman eða um 62 prósent.

Hafa skal í huga að í tölum Eurocontrol er aðeins horft til fjölda flugferða en ekki farþega. Sætanýting í flugi evrópskra flugfélaga er til að mynda miklu lægri í dag en hún var í hittifyrra. Í farþegum talið er samdrátturinn því mun meiri.