Bæta við Íslandsflugi frá Chicago

Þotur United munu fljúga til Íslands frá bæði New York og Chicago í sumar. MYND: UNITED Airlines

Bandaríska flugfélagið United ætlar að hefja flug til Íslands frá Chicago þann 1. júlí. Í boði verða daglegar ferðir fram í byrjun október samkvæmt tilkynningu frá Isavia.

Þar með fær Icelandair samkeppni í flugi hingað frá bandarísku borginni á nýjan leik. Wow Air og Icelandair héldu nefnilega bæði uppi áætlunarferðum frá borginni á sínum tíma. Þar áður hafði Iceland Express spreytt sig á flugi þaðan.

Þetta verður hins vegar í fyrsta sinn sem bandarískt flugfélag stundar áætlunarflug frá Chicago til Íslands.

Sem fyrr gerir sumaráætlun United einnig ráð fyrir flugi héðan frá Newark flugvelli við New York.