Bandaríkjamenn fengu ferðaleyfi til Íslands í gær og Bretar mögulega á morgun

Bólusettir Bandaríkjamenn hafa fengið grænt ljós á utanlandsferðir. Bresk stjórnvöld ætla að kynna á morgun hvaða reglur muni gilda þar í landi frá og með miðjum næsta mánuði.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Iceland.is

Allir þeir Bandaríkjamenn sem hafa verið bólusettir fyrir Covid-19 geta nú ferðast innanlands sem utan. Þetta gáfu sóttvarnaryfirvöld vestanhafs út í gær en áfram verður þessi hópur að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr nýju smitprófi við heimkomuna.

Bandarískir ferðamenn sem fljúga til Íslands í sumar munu því þurfa að fara í sýnatöku hér á landi áður en þeir halda heim á leið.

Það munu breskir túristar væntanlega einnig þurfa að gera því samkvæmt heimildum The Telegraph ætla bresk stjórnvöld að gera kröfu um að allir sem koma til Bretlands, frá og með 17. maí, hafi farið í Covid-próf fyrir flugferðina.

Ef Ísland verður á þeim tíma flokkað sem grænt land þá ættu Bretar að sleppa við sóttkví eftir dvöl hér á landi. Aftur á móti þyrftu þeir óbólusettu að gangast undir aðra skimun við heimskomuna.

Öðru máli gegnir um ferðalög Breta til landa þar sem útbreiðsla Covid-19 er ennþá mikil. Þá bíður þeirra óbólusettu allt að tíu daga sóttkví samkvæmt frétt The Telegraph.

Búist er við að bresk stjórnvöld kynni á morgun með hvaða hætti verður dregið verði úr sóttvarnaraðgerðum við landamærin.