Bandaríkjamenn hvattir til að ferðast ekki til útlanda

Farþegar á flugvellinum í Portland í Oregon. Icelandair ætlar að hefja flug þangað á ný í sumar. MYND: PDX

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hvetur nú þegna landsins til að endurskoða áform sín um ferðalög út í heim vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Ráðuneytið leggst gegn ferðalögum til átta af hverjum tíu löndum í heiminum og mælir ekki með ferðalögum til annarra landa. Þetta kemur fram í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í gær en ekki er um að ræða formlega ferðaviðvörun.

Þetta nýja mat bandarískra stjórnvalda byggir á ráðleggingum frá CDC, bandarísku sóttvarnarstofnuninni.

Á heimasíðu CDC er Ísland flokkað með ríkjum þar sem útbreiðsla Covid-19 er í meðallagi. Stofnunin mælist því til að eingöngu þeir Bandaríkjamenn sem hafa verið bólusettir ferðist til landsins og aðeins ef nauðsyn krefur til.

Á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins er Ísland í flokki 3 og eru Bandaríkjamenn beðnir um að endurskoða ferðir sínar til landa í þeim flokka eins og sjá má hér að neðan.