Biður Breta um að bíða með að bóka utanlandsferðir

London Piccadilly Julian LoveLondon and Partners
Það er of snemmt að segja til um hvort ferðir til og frá Bretlandi verði heimilar á ný þann 17. maí líkt og stefnt hefur verið að. MYND: VISIT LONDON

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar á pöbbinn þann 12. apríl næstkomandi þegar öldurhúsum verður leyft að taka til starfa á ný. Þetta fullyrti forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær þar sem hann fór yfir gang mála í afléttingu á þeim sóttvarnaraðgerðum sem nú gilda í landinu.

Aftur á móti var Johnson ekki til í að staðfesta að ferðalög, til og frá Bretlandi, yrðu með eðlilegri hætti frá og með 17. maí líkt og stefnt hefur verið að.

Johnson sagði á fundinum í gær að það væri ennþá of snemmt að segja til um hvort það gangi eftir og Bretar ættu því ekki að bóka sumarferðir út í heim enn sem komið er. Vísaði forsætisráðherrann þar til mikillar útbreiðslu Covid-19 í þeim löndum sem Bretar væru líklegastir til að ferðast til.

Í dag er reglan sú að allir íbúar Bretlandseyja verða að hafa gilda ástæðu fyrir því að ferðast út í heim og einnig að fara í sóttkví við heimkomuna.

Þegar sú regla verður felld úr gildi, 17. maí eða síðar, þá verður svokallað litakóðunarkerfi tekið upp á breskum landamærum. Erlend ríki verða þá flokkuð græn, appelsínugul eða rauð eftir því hversu útbreidd Covid-19 smitin eru í viðkomandi landi.

Ekki hefur verið gefið út hvaða lönd eru í hverjum flokki fyrir sig en Bretar sem snúa heim úr ferðalagi til lands sem flokkað er grænt munu þurfa í skimun fyrir heimferð og svo aftur við komuna til Bretlands. Það á við þá bólusettu en líka þá sem ekki hafa verið bólusettir.

Tíu daga sóttkví við heimkomu verður aftur á móti skilyrði þegar Bretar snúa heim eftir dvöl í landi sem flokkað er sem appelsínugult. Þeir bólusettu gætu þó sloppið.

Hins vegar verður bannað að fljúga frá Bretlandi til rauðra landa og allir sem koma frá þeim löndum verða að fara sóttvarnarhótel í ellefu daga og greiða sem jafngildir um þrjú hundruð þúsund krónur fyrir gistinguna.