Bláa Lónið í Kringlunni

Það er stígandi í bókunum í Bláa Lónið fyrir komandi sumar sem lofar góðu um framhaldið segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs Bláa Lónsins.

Nú verður opið í Bláa Lóninu frá föstudegi til sunnudags en svo daglega frá byrjun júní. MYND: BLÁA LÓNIÐ

Í dag opnar Bláa Lónið á ný en ekki bara lónið sjálft og flestar starfstöðvar í Svartsengi heldur einnig í Kringlunni. Þar verður ný verslun Bláa Lónsins vígð í dag og ný húðvörulína kynnt sem ber heitið BL+.

„Íslendingar fjölmenntu í Bláa Lónið síðasta sumar og það var ánægjulegt að finna fyrir miklum áhuga þeirra á baðlóninu og öllu því sem svæðið hefur uppá að bjóða. Það ríkir því mikil tilhlökkun hjá okkur starfsfólkinu að fá loksins að opna Bláa Lónið á ný og taka á móti gestum en ekki síður að opna nýja og glæsilega verslun í Kringlunni,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs Bláa Lónsins.

Aðspurð um komandi sumar þá segir Helga að bókunarstaðan batni með hverjum degi.

„Við finnum stíganda í bókunum erlendis frá og þær dreifast nokkuð jafnt frá sumarbyrjun og fram á næsta vetur. Á sama tíma eru ferðaskrifstofur að halda í fyrri bókanir sem lofar góðu um framhaldið. Við vonumst því til að geta tekið á móti Íslendingum jafnt sem erlendum gestum í sumar.“

Bláa Lónið verður opið alla föstudaga og um helgar út maí en daglega frá byrjun júnímánaðar.