Borga ferðamönnum fyrir að heimsækja eyjuna

Stjórnvöld á Möltu ætla að niðurgreiða hótelkostnað erlendra ferðamanna í sumar. Mynd: Ferðamálaráð Malta

Dregið verður úr sóttvarnaraðgerðum við landamæri Möltu þann 1. júní og þar með verða ferðir til og frá eyjunni einfaldari en verið hefur síðustu mánuði.

Og til að lokka fleiri útlendinga til Miðjarðarhafseyjunnar í sumar ætla stjórnvöld að niðurgreiða gistingu allra þeirra sem þangað koma um allt að 200 evrur. Það jafngildir um 30 þúsund krónum.

Krafa er þó gerð um að túristarnir gisti í að lágmarki þrjár nætur og bóki gistinguna beint hjá hótelunum. Pantanir sem gerðar eru á alþjóðlegum bókunarsíðum verða ekki gjaldgengar samkvæmt frétt Skift.

Ferðamenn sem bóka gistingu á fimm stjörnu hóteli fá hæsta styrkinn en svo lækkar hann um fimmtíu evrur ef fólk velur fjögurra stjörnu gistingu. Þeir sem fara á þriggja stjörnu hótel fá 100 evru styrk eða um 15 þúsund kr.

Árið 2019 heimsóttu 2,7 milljónir erlendra ferðamanna Möltu en hingað til lands komu þá um tvær milljónir ferðamanna.

Farþegahópurinn á Keflavíkurflugvelli og alþjóðaflugvellinum á Möltu var hins vegar jafn stór í hittifyrra. Vægi erlendra ferðamanna í farþegahópnum í Leifsstöð var aftur á móti mun lægra enda hafa skiptifarþegar verið fjölmennastir þar á bæ.