Englendingar geta farið að huga að ferðum út í heim

Frá Heathrow flugvelli í London. MYND: HEATHROW AIRPORT

Bresk yfirvöld gáfu það út í febrúar að það yrði í fyrsta lagi þann 17. maí sem ferðalög til og frá landinu yrðu með eðlilegri hætti en nú er. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur hins vegar ekki verið til í að staðfesta hvort dagsetningin standi.

Grant Sharps, samgönguráðherra Bretlands, sagði þó í viðtali við Sky News í morgun að Englendingar geti farið að skipuleggja ferðalög nú í sumar. Hann fullyrti einnig að ríkisstjórnin væri að vinna að því að ná niður kostnaði við þau smitpróf sem fólk þarf að taka í tengslum við utanlandsferðir þegar að því kemur.

Eins og staðan er í dag kosta þess háttar próf 100 pund eða um 17.500 krónur. Fulltrúar flug- og ferðageirans í Bretlandi hafa bent á að þetta háa verð muni aðeins gera þeim efnameiri kleift að ferðast.

Breska ríkisstjórnin getur aðeins lagt línurnar varðandi ferðalög til og frá Englandi. Stjórnvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi ráð ferðinni á sínum svæðum.