ESB að opna fyrir bólusettum Bandaríkjamönnum

Þó fólk fái að ferðast í auknum mæli milli landa þá virðist reglan um grímunotkun ekki vera á útleið. MYND: SCHIPHOL

Í dag er Ísland eitt fárra Evrópuríkja sem er opið fyrir ferðamönnum frá Bandaríkjunum og hafa bandarísk flugfélög fjölgað ferðum sínum til Keflavíkurflugvallar í sumar.

Valkostirnir sem standa bólusettum Bandaríkjamönnum til boða fyrir sumarið gætu þó orðið fleiri því nú íhuga ráðamenn ESB að fella niður bann við öllum ónauðsynlegum ferðum frá Bandaríkjunum til sambandsríkjanna. Þetta kemur fram í frétt New York Times.

Blaðið hefur eftir Ursula von der Leyden, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Bandaríkjamenn noti sömu bóluefni og hafa verið samþykkt innan Evrópu. Ferðalög bólusettra innan ESB ættu því að vera heimil en forsetinn gaf þó ekkert upp um hvenær reglunum yrði breytt.

Ekki kemur fram í frétt New York Times hvort bandarísk yfirvöld íhugi einnig að fella niður bann við ferðum útlendinga inn fyrir sín landamæri.