Fá mikinn meirihluta í Play

Stjórn lífeyrissjóðsins Birtu fjallaði í gær um mögulega aðkomu sjóðsins að hinu verðandi flugfélagi Play. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Í grein blaðsins segir jafnframt að fjárfestingafélagið Stoðir og eigendur Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, íhugi að taka þátt í hlutafjárútboði Play. Þátttaka mun einnig vera til skoðunar hjá lífeyrissjóðnum Lífsverk.

Ætlunin er að safna hlutafé upp á 4,5 milljarða króna og munu nýir fjárfestar fá mikinn meirihluta í Play samkvæmt Fréttablaðinu. Virði félagsins er í dag metið á rúmlega einn milljarð króna og mun verðmatið meðal annars byggja á þeim fjármunum sem Elías Skúli Skúlason, stjórnarformaður Play, og hópur fjárfesta hafi lagt til.

Viðskiptablaðið hafði það eftir Elíasi Skúla í júní í fyrra að rekstur Play kostaði á bilinu 200 til 300 þúsund evrur í mánuði. Það jafngildir 30 til 45 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Miðað við þær tölur þá er ljóst að rekstur Play hefur kostað að minnsta kosti um fjögur hundruð milljónir króna síðastliðna tólf mánuði.

Fréttablaðið segir einnig frá því að hluti fjárfestanna, sem nú íhuga kaup á hlutafé Play, vilji ráða Birgi Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóra Iceland Express og Íslandspósts, sem forstjóra.

Þess má þó geta að Birgir var einnig aðstoðarforstjóri WOW air í eitt ár og hafði áður sinnt ráðgjafastörfum fyrir félagið. Birgir lét hins af störfum hjá WOW sumarið 2015, stuttu eftir að félagið hóf að fljúga til Bandaríkjanna.

Líkt og Túristi greindi frá fyrr í þessari viku þá er Play með vilyrði fyrir leigu á þremur Airbus A321 þotum.