Greiðslustöðvun Norwegian senn á enda

Kröfuhafar Norwegian hafa nú í tvígang samþykkt áætlun stjórnenda flugfélagsins um endurreisn þess. Og nú hafa norskir dómstólar gert það sama í tengslum við greiðslustöðvun félagsins sem staðið hefur í nær allan vetur. Þar með sér fyrir endann á greiðslustöðvun Norwegian í bæði Írlandi og í Noregi.

Fyrst þurfa þó stjórnendur Norwegian að finna það fjármagn sem þarf til að koma félaginu á flug á ný samkvæmt því sem fram kemur í frétt Dagens Næringsliv.

Áður hefur verið gefið út að ætlunin sé að safna inn nýju hlutafé fyrir 4,5 milljarða norskra króna. Það jafngildir um 68 milljörðum íslenskra króna. Norska ríkið ætlar að leggja félaginu til þriðjung af þessari upphæð og einn ónefndur fjárfestir mun ætla að leggja fram einn milljarða norskra króna.

Í sumaráætlun Norwegian er aðeins gert ráð fyrir að þotur félagsins fljúgi til Keflavíkurflugvallar frá Ósló. Félagið var hins vegar áður umsvifamikið í Íslandsflugi frá Spáni.