Innanlandsflugið tekur við sér

Það var að jafnaði 521 farþegi á dag sem flaug innanlands með Icelandair, áður Air Iceland Connect, í mars. MYND: ICELANDAIR

Farþegum á Reykjavíkurflugvelli fækkaði um helming í mars í fyrra en þá fór Covid-19 faraldurinn að hafa verulega áhrif á ferðalög fólks. Nú eru hins vegar batamerki að sjá í nýjum farþegatölum Icelandair. Farþegum í innanlandsflugi félagsins fjölgaði nefnilega um 52 prósent í síðasta mánuði.

Flugfélagið hefur nú tekið upp á því að birta sérstaklega farþegatölur fyrir innanlandsflugið en áður var þeim blandað saman við farþegafjöldann sem nýtti sér ferðir Air Iceland Connect, áður Flugfélag Íslands, til Grænlands.

Nú hefur rekstri Air Iceland Connect hins vegar verið rennt saman við Icelandair og upplýsingagjöfin tekur miða af því. Þar með eru farþegar Icelandair í Grænlandsflugi loks taldir sem hluti af millilandaflugi félagsins.