Íslendingar fyrsta þjóðin sem kemst til Danmerkur á ný

Frá flugvellinum við Kastrup í Kaupmannahöfn. MYND: CPH

Dönsk stjórnvöld ætla að létta á aðgerðum við landsmæri sín frá og með morgundeginum. Liður í þeirri aðgerð er að opna á fólksflutninga frá löndum og svæðum innan Schengen sem flokkuð eru gul. Farþegar frá þessum löndum þurfa því ekki að gera grein fyrir ferðum sínum til Danmerkur né þurfa þeir í einangrun við komuna.

Áfram verður þó gerð krafa um að ferðafólk framvísi nýjum niðurstöðum úr Covid-prófi og gangist undir annað við komuna til Danmerkur.

Ennþá er Ísland eina landið sem telst vera gult samkvæmt smitsjúkdómayfirvöldum í Danmörku en fjögur svæði innan Noregs eru það einnig. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef danska utanríkisráðuneytisins.

Það opnast þó ekki á ferðir Dana til Íslands með þessari breytingu því áfram leggjast dönsk stjórnvöld gegn ferðalögum þegna sinna til útlanda.