Malta býður bólusettum Bretum í heimsókn

Breskir ferðamenn eru tíðir gestir á Möltu og nú vonast yfirvöld þar eftir að lokka ófáa breska túrista til sín í sumar. MYND: VISIT MALTA

Það liggur ekki ennþá fyrir hvort Bretar fá að ferðast til útlanda í sumarbyrjun án þess að þurfa í langa sóttkví við komuna heim. Nokkur Evrópuríki hafa þó þegar gefið það út að breskir ferðamenn séu velkomnir þangað í sumar.

Nú bætist eyríkið Malta við þann hóp því yfirvöld þar hafa gefið út að allir Bretar, sem hafa verið bólusettir, fá að ferðast um landið frá og með 1. júní. Það er þó skilyrði að viðkomandi hafi fengið fulla bólusetningu að minnsta kosti tíu dögum fyrir ferðalagið til Möltu.