Með stóran hlut í Play og lítinn í Icelandair

MYND: ISAVIA

Lífeyrissjóðurinn Birta ætlar að fjárfesta einum milljarði króna í hinu verðandi flugfélagi Play. Þar með eignast lífeyrissjóðurinn fimmtán prósent hlut í félaginu og verður annar af tveimur stærstu hluthöfunum. Hinn stóri hluthafinn er fjárfestingafélagið Fiskisund en fyrir því fer Einar Örn Ólafsson og verður hann stjórnarformaður Play. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins í dag.

Fyrir hlutafjáraukninguna í Icelandair síðastliðið haust þá var Birta einn af stærstu hluthöfum Icelandair og fór fyrir 7,07 prósent hlut í flugfélaginu fyrir ári síðan. Vægi Birtu í hluthafahópi Icelandair er hins vegar 1,34 prósent í dag. Skýringin á því er sú að sjóðurinn tók ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins í fyrra.

Það gerðu ekki heldur tveir aðrir stórir hluthafa, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital.

Virði hlutar Birtu í Icelandair er 545 milljónir króna í dag en sem fyrr segir mun sjóðurinn ætla að setja milljarð króna í Play.