Mikil ásókn í ferðir á topp Everest

Mount Everest. Mynd: Jean Woloszczyk / Unsplash

Gönguleiðin upp á hæsta fjall í heimi hefur verið lokuð síðan heimsfaraldurinn hófst í mars í fyrra. Nú eru stjórnvöld í Nepal aftur á móti byrjuð að hleypa göngugörpum á fjallið á ný.

Og til marks um uppsafnaða þörf heimsbyggðarinnar fyrir ferðalög þá hefur nú þegar 244 leyfum verið úthlutað fyrir göngu á fjallið í ár samkvæmt frétt Kathmandu Post. Ráðamenn á svæðinu búast við að enn fleiri göngugarpar vilji spreyta sig á Everest á næstu mánuðum og árið í ár gæti því farið nálægt því að toppa metárið 2019. Þá voru gefin út 381 leyfi fyrir göngu á toppinn.

Þess má svo geta að í fyrra mældist Mount Everest sextíu sentimetrum hærra en áður var talið. Stjórnvöld í Kína og Nepal hafa sannmælst um að fjallið sé í dag 8.848,86 metrar á hæð.