Nordic Visitor gerir samning um kaup á Iceland Travel

Hjá Icelandair samsteypunni er ætlunin að fókusa á flugrekstur. Fyrirtækið hefur nú selt aðra af ferðaskrifstofunum sínum.

SKJÁMYND AF VEF ICELAND TRAVEL

Icelandair Group hf. og Nordic Visitor hf. hafa undirritað samning um helstu forsendur og skilmála kaupsamnings varðandi möguleg kaup hins síðarnefnda á öllu hlutafé í Iceland Travel. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair samsteypunni.

„Samningurinn er gerður með fyrirvara um skilyrði sem hefðbundin eru með viðskipti af þessum toga, svo sem framkvæmd áreiðanleikakönnunar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og að aðilar nái saman um kaupsamning,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að mikill áhugi hafi verið á kaupum á Iceland Travel sem lengi hefur verið stærsta ferðaskrifstofa landsins þegar kemur að skipulagningu Íslandsferða. Nordic Visitor er líka umsvifamikil á því sviði og keypti í fyrra ferðaskrifstofuna Terra Nova.