Nýjasta flugfélag Bandaríkjanna

Nú fjölgar valkostunum fyrir þá íbúa Bandaríkjanna sem eiga erindi til Los Angeles.

Avelo mun eingöngu notast við Boeing 737 þotur en þó ekki af MAX vélar heldur eldri týpur. TÖLVUTEIKNING: AVELO

Nú í lok apríl er á dagskrá jómfrúarferð bandaríska flugfélagsins Avelo. Þetta nýja lágfargjaldafélag ætlar að gera út frá Hollywood Burbank flugvelli í Los Angeles. Þaðan verður flogið til tíu borga í vesturhluta Bandaríkjanna.

Maðurinn að baki Avelo heitir Andrew Levy og sá er enginn nýgræðingur í faginu. Hann var lengi fjármálastjóri United flugfélagsins og síðar forstjóri Allegiant sem náð hefur góðum árangri í innanlandsflugi í Bandaríkjunum.

Og segja má að Avelo rói á sömu mið og Allegiant. Fókusinn er nefnilega á að bjóða íbúum minni borga upp á beint flug til vinsælla áfangstaða. Og flugfloti Avelo verður samansettur af Boeing 737 þotum líkt og Allegiant notar í sinn rekstur.