Óbreyttar reglur varðandi bólusetta ferðamenn

MYND: ISAVIA

Ríkisstjórnin kynnti í dag tímabundnar hertar aðgerðir á landamærunum til að sporna við útbreiðslu kórónaveirunnar. Engar breytingar eru hins vegar boðaðar varðandi komur þeirra sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu.

Sá hópur þarf í eina sýnatöku við komuna til landsins og sæta reglum um sóttkví meðan beðið er niðurstöðu. Þetta er sama regla og kynnt hafði verið á sínum tíma.

Öðru máli gegnir um þá óbólusettu sem ferðast til Íslands frá löndum þar sem smit eru útbreidd.

Þannig verða þeir skyldaðir til að dvelja í sóttkvíarhúsi sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir tilteknum mörkum, þ.e. 1000 nýsmit á 100 þúsund íbúa.

Ef nýsmit eru á bilinu 750 til 1000 þá verði sóttkvíarhús meginreglan en þó verði heimilt að veita undanþágu.

Dómsmálaráðherra fær einnig aukna heimild til þess að leggja bann við ónauðsynlegum ferðum til og frá hááhættusvæðum samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis.