Óþarfi að fara úr landi til að upplifa ævintýri

Það eiga líklega ófáir Danir eftir að fara í hjólatúr á Norður-Sjálandi í sumar. MYND: DANMARK MEDIA CENTER © Niclas Jessen

Ferðamálaráð Dana hleypti af stokkunum í dag markaðsherferð þar sem heimamenn eru hvattir til að ferðast innanlands í sumar. Alveg eins og í fyrra.

Í tilkynningu frá ferðamálaráði Danmerkur er haft eftir Simon Kollerup, viðskiptarráðherra, að Danmörk sé yndislegur áfangastaður sem bjóði upp á margar góðar og einstakar upplifanir. Og það hafi fólk fengist staðfest á ferðalögum sínum um landið í fyrra.

Kellerup segist því ánægður með að endurtaka leikinn í ár og veita Dönum innblástur að ferðalagi um þeirra eigið land.

Í því samhengi má rifja upp að fjölda margir Danir nýttu síðasta sumar til að ferðast til Íslands. Þannig var fimmti hver erlendi ferðamaður hér á landi í júní og júlí með danskt vegabréf í vasanum.

Og frá og með deginum í dag geta Íslendingar ferðast til Danmerkur án þess að fara í sóttkví við komuna. Þó ber að hafa í huga að reglur danskra stjórnvalda verða endurskoðaðar vikulega og þá horft til útbreiðslu kórónaveirunnar í hverju landi fyrir sig.