Setja skilyrði fyrir stuðningi við flugið

aircanada
Kanadíska ríkið eignast nú hlut í Air Canada á ný.

Það var fyrst í gær sem kanadísk stjórnvöld kynntu sérstakar aðgerðir til að styðja sérstaklega við fluggeirann þar í landi. Kanadísk flugfélög hafa vissulega notið góðs af almenntum úrræðum sem fyrirtækjum hafa staðið til boða í heimsfaraldrinum en hafa ekki fengið neina séraðstoð.

Nú hefur ríkisstjórn Kanada aftur á móti ákveðið að leggja Air Canada, stærsta flugfélagi landsins, til 5,4 milljarða kanadískra dollara. Sú upphæð nemur um 550 milljörðum íslenskra króna. Stærsti hluti upphæðarinnar er lánsfé en kanadíska ríkið mun einnig eignast hlut í flugfélaginu. Air Canada var einkavætt á níunda áratugnum.

Þak á launagreiðslur til stjórnenda

Það eru þó nokkur skilyrði sem ríkið setur fyrir fyrir lánveitingunni. Í fyrsta lagi verður Air Canada að endurgreiða farþegum flugmiða sem ekki hafa nýst vegna heimsfaraldursins. Einnig gerir ríkið kröfu um að flugfélagið hefji á ný flug til minni bæja og kaupi þrjátíu og þrjár Airbus A220 þotur. Þær eru framleiddar í Kanada enda voru þær upphaflega hluti af flugvélaframleiðslu kanadíska fyrirtækisins Bombardier.

Til viðbótar við þennan lista þá verður sett þak á greiðslur til stjórnenda Air Canada. Árslaun þeirra mega ekki fara upp fyrir 1 milljón kanadískra dollara á ári. Sú upphæð jafngildir um 100 milljónum kr.

Hafa sagt upp meira en helmingi starfsmanna

Samkvæmt frétt Bloomberg eiga kanadísk stjórnvöld í viðræðum við fleiri flugfélög í landinum um fjárhagslega aðstoð.

Í dag starfa fimmtán þúsund manns hjá Air Canada en félagð hefur sagt upp upp tuttugu þúsund starfsmönnum síðan heimsfaraldurinn hófst. Landamæri Kanada eru í raun lokuð en Air Canada gerir ráð fyrir að hefja flug til Íslands á ný í byrjun júlí.