Spá hægari bata í fluggeiranum og sérstaklega þeim evrópska

Sérfræðingar IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, spá því að evrópsk flugfélög verði lengur að komast út úr kórónuveirukreppunni. MYND: AMAN BHARGAVA / UNSPLASH

„Þessi krísa er lengri og dýpri en nokkurn hefði grunað,“ segir Willie Walsh, framkvæmdastjóri IATA, en þessi alþjóðlegu samtök flugfélaga sendu í síðustu viku frá sér uppfærða spá fyrir horfurnar í fluggeiranum.

Og niðurstaðan er sú að tapreksturinn í ár verði meiri en gert hafði verið ráð fyrir í spá samtakanna sem birt var í desember í fyrra. Sérstaklega í Evrópu.

Helsta skýringin á því er sú að árið hefur farið mun hægar af stað er vonast var til. Farþegaflug milli heimsálfa er til að mynda ennþá mjög takmarkað. Sérfræðingar IATA gera einnig ráð fyrir að olíuverð hækki umfram það sem áður var reiknað með en kaup á eldsneyti vega þungt í rekstri flugfélaga.

Sem fyrr segir telur IATA horfurnar vera dekkri í evrópskum fluggeira sem skrifast meðal annars á hægari gang í bólusetningum í álfunni. Einnig gera samtökin ráð fyrir að framboð á flugi yfir Norður-Atlantshafið verði um helmingi minna á seinni hluta þessa árs en var á sama tíma árið 2019.