Stofna áfangastaðastofu á Norðurlandi

Frá Akureyri. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað samning við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um stofnun áfangastaðastofu á Norðurlandi. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.

Þar er jafnframt haft eftir ráðherra að það sé ánægjulegt að nú séu áfangastaðastofur starfandi hringinn í kringum landið.

„Áfangastaðastofur starfa í umboði sveitarfélaga á hverju landsvæði fyrir sig og eru samstarfsvettvangur þeirra, ríkisins og ferðaþjónustunnar sjálfrar. Með starfseminni næst meðal annars fram sú mikilvæga samþætting sem markvisst hefur verið unnið að síðastliðin ár og byggir á sérhæfðum mannauði, þekkingu og reynslu sem mun styðja við verkefni ferðaþjónustunnar í öllum landshlutum. Þannig er stuðlað að því að hún þróist í takt við vilja heimamanna og hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi,“ segir ráðherra.