Tapið var 3,7 milljarðar króna

MAX ÞOTA ICELANDAIR Í BERLÍN. MYND: BERLIN AIRPORT

Afkoma Icelandair er ávallt neikvæð á fyrsta fjórðungi hvers árs. Það á líka við um árin sem félagið var rekið með hagnaði en það gerðist síðast árið 2017.

Heimsfaraldurinn sem ennþá geysar setti fyrst mark sitt á rekstur Icelandair í mars í fyrra og þá var tapið meira en nokkru sinni fyrr á fyrsta ársfjórðungi eða 31 milljarður króna. Í uppgjörsmynt Icelandair, bandarískum dollurum, var tapið 240 milljónir.

Nú í kvöld birti Icelandair svo uppgjör sitt fyrir fyrsta fjórðung þessa árs og niðurstaðan var tap upp á 3,7 milljarða króna á gengi dagsins eða 30 milljónir dollara. Það er betri afkoma en gert var ráð fyrir í spá sem Icelandair gaf út í tengslum við hlutafjárútboð sitt sl. haust. Þar var reiknað með tapi upp á 43 milljónir dollara.

Segja má að farþegaflug Icelandair hafi nærri legið í dvala allan fjórðunginn því sætisframboðið var rétt um 6 prósent af því sem var á fyrsta fjórðungi 2019.