Tekur við forstjórastöðunni hjá Play

Birgir Jónsson er nýr forstjóri Play. MYNDIR: ÍSLANDSPÓSTUR OG PLAY

Á starfsmannafundi hjá Play í morgun var Birgir Jónsson kynntur til leiks sem nýr forstjóri félagsins. Þetta herma heimildir Túrista.

Birgir var áður framkvæmdastjóri Iceland Express og síðar aðstoðarforstjóri WOW air. Hann lét af störfum sem forstjóri Íslandspósts í lok síðasta árs.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að til stæði að Birgir tæki við forstjórastöðunni hjá Play í tengslum við aðkomu nýrra hluthafa að félaginu.

Arnar Már Magnússon, einn þeirra fjögurra sem stofnaði Play á sínum tíma, hefur verið forstjóri síðan félagið var kynnt til sögunnar í nóvember 2019.

Ekki var gefið út á starfsmannafundinum í morgun hvenær fyrsta ferð hins verðandi flugfélags verður farin.