Þurfa að taka eina af MAX þotunum úr rekstri

Icelandair hefur flutt fjórar af sex MAX þotum sínum til landsins. Tvær eru enn í geymslu á Spáni. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Boeing flugvélaframleiðandinn tilkynnti í síðustu viku að leggja yrði sextíu MAX þotum tímabundið vegna mögulegs galla í rafkerfi. Þá kom fram að þetta hefði ekki áhrif á MAX þotur Icelandair.

Nú hefur flugfélaginu hins vegar verið tilkynnt að sambærilegt mál hafi áhrif á eina MAX vél í flota Icelandair.

„Icelandair hefur því í varúðarskyni tekið tiltekna vél úr rekstri á meðan skoðun fer fram og úrbætur gerðar samkvæmt tilmælum Boeing og bandarískra flugmálayfirvalda. Rétt er að taka fram að málið tengist ekki hinu svokallaða MCAS kerfi vélarinnar og er því ekki tengt kyrrsetningu vélanna sem hefur verið aflétt,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Þotan sem um ræðir er TF-ICO sem framleidd var í febrúar árið 2019. Sú var síðast nýtt í áætlunarflug Icelandair til Stokkhólms þann 11. apríl samkvæmt vef Flightradar.