35 milljarða króna tap

MYND: SAS

Skandinavíska flugfélagið SAS birti nú í morgunsárið uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í reikningsári fyrirtækisins. Sá nær yfir febrúar til apríl í ár og niðurstaðan er tap upp á 2,4 milljarða sænskra króna. Það jafngildir 35 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur félagsins á þessu tímabili drógust saman um tvo þriðju. Skýringin liggur skiljanlega í þeirri staðreynd að ferðalög hafa verið mjög takmörkuð allt frá því í byrjun mars í fyrra vegna heimsfaraldursins.

SAS líkt og fleiri flugfélög efndu til hlutafjárútboðs síðastliðið haust til að koma félaginu í gegnum faraldurinn. Danska og sænska ríkið eignuðust í kjölfarið ennþá stærri hlut í flugfélaginu. Um helmingi þess fjármagns sem safnaðist í útboðinu hefur þegar verið eytt samkvæmt frétt DN í Noregi.

Hver mánuður í heimsfaraldrinum hefur nefnilega kostað þetta stærsta flugfélag Norðurlanda á bilinu 500 til 700 milljónir sænskra króna. Sú upphæð jafnast á við sjö til tíu milljarða íslenskra króna.

SAS tilkynnti í gær að félagið hygðist draga á 45 milljarða króna lánalínu til að styðja við lausafjárstöðu félagsins.