554 sæti á dag í Íslandsflugi Delta

Þrjár þotur á vegum Delta lentu á Keflavíkurflugvelli í morgun og þannig verður það daglega nú í sumar. MYND: ISAVIA

Flugvél bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun í fyrstu ferð ársins frá Minneapolis. Þar með er dagleg flugáætlun Delta frá þremur borgum í Bandaríkjunum komin til framkvæmda. Flug frá New York hófst 1. maí og frá Boston 20. maí.

Alls verða 554 sæti daglega í boði í Boeing 757 vélum Delta í Íslandsfluginu í sumar. Framboðið eykst upp í 612 sæti þegar Boeing 767 breiðþota verður notað í ferðinar frá New York síðar í sumar.

Í tilkynningu frá Delta kemur fram að Ísland hafi verið fyrsta Evrópulandið sem heimilaði komu fullbólusettra bandarískra ferðamanna án þess að þeir þurfi að fara í sóttkví.

„Ferðaþyrstir Bandaríkjamenn hafa tekið því fagnandi og sér þess merki hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu um allt land. Það er til marks um sterka stöðu sem áfangastaðar fyrir bólusetta Bandaríkjamenn, að á ferðasíðu New York Times sl. miðvikudag er Ísland talið upp sem einn af sjö vinsælustu ferðamannastöðum Evrópu. Hinir eru Króatía, Frakkland, Grikkland, Ítalía, Tyrkland og Bretland,“ segir í tilkynningu.