Á orðið stærri hlut en forstjórinn

Bogi Nils Bogason og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir. MYNDIR: ICELANDAIR

Öll átta manna framkvæmdastjórn Icelandair samsteypunnar tók þátt í hlutafjárútboði fyrirtækisins síðastliðið haust. Forstjórinn, Bogi Nils Bogason, var stórtækastur og keypti hlutabréf fyrir 17,5 milljónir króna. Útboðsgengið var 1 króna á hvern hlut og eftir þessa fjárfestingu átti eignarhaldsfélag í eigu Boga samtals 19.250.000 hluta í Icelandair Group.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, var næst umsvifamest af stjórnendum Icelandair því í útboðinu keypti hún fyrir sextán milljónir króna. Þar með fór heildareign hennar í Icelandair upp í 17.250.000 hluti.

Í dag bætti Eva Sóley svo um betur og keypti sex milljónir hluta á nærri 10 milljónir króna. Þar með á eignahaldsfélag hennar í dag 23.250.000 hluti í Icelandair.

Líkt og tilkynnt var í lok síðustu viku þá hefur Eva Sóley óskað eftir að láta af störfum hjá Icelandair.

Þess ber að geta að bæði Eva Sóley og Bogi Nils eiga kauprétti á enn fleiri bréfum í Icelandair.