Áhöfnum áfram skutlað frá Reykjavík

MYND: ICELANDAIR

Í kjarasamningi Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands, sem undirritaður var eftir harðar deilur sl. sumar, segir að frá og með morgundeginum, 1. júní 2021, muni áhafnarbifreiðar flugfélagsins leggja í hann frá Hafnarfirði. Hingað til hefur flugverjum Icelandair hins vegar verið skutlað út á Keflavíkurflugvöll frá aðalskrifstofum flugfélagsins við Reykjavíkurflugvöll.

Spurð um undirbúning þessarar breytingar þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icleandair, að verið sé að innleiða breytinguna og áfram verði akstur í boði frá Reykjavík um óákveðinn tíma.

Þess má geta að Icelandair seldi höfuðstöðvar sínar fyrir lok síðasta árs og hyggst flytja skrifstofustarfsemi sína til Hafnarfjarðar á næstu árum. Þar í bær er þjálfunarmiðstöð félagsins, nánar tiltekið við Flugvelli í Vallarhverfi.

Skrifstofur Play eru einnig í Hafnarfirði en áhafnir þess félags verða sjálfar að koma sér til og frá Keflavíkurflugvelli.