Enginn skortur á ferðum til Tenerife

Íslendingar á leið til og frá Tenerife geta áfram valið á milli ferða á vegum nokkurra ferðaskrifstofa og flugfélaga. MYND: AENA

Þotur Wow air flugu reglulega til Kanaríeyja og félagið var það umsvifamesta í Spánarflugi frá Íslandi. Norwegian tók svo við keflinu með áætlunarflugi héðan til fimm spænskra áfangastaða.

Þar á meðal til Tenerife og veturinn 2018-19 flutti félagið sex af hverjum tíu farþegum sem áttu leið þangað frá Keflavíkurflugvelli.

Nú hefur Norwegian hins vegar lokað starfsstöð sinni á Tenerife en það gat sem félagið skilur eftir sig á íslenska markaðnum er óðum að fyllast. Og það var vissulega viðbúið því áhugi Íslendinga á ferðum til spænsku eyjunnar er ennþá mikill.

Í dag eru til að mynda þrjár ferðaskrifstofur, Úrval-Útsýn, Heimsferðir og Aventura, með eigið leiguflug til Tenerife. Þær tvær fyrrnefndu bíða reyndar eftir úrskurði Samkeppnisyfirvalda því í lok síðasta árs var undirrituð viljayfirlýsing um kaup Ferðaskrifstofu Íslands, móðurfélags Úrval-Útsýnar, á Heimsferðum.

Við framboð ferðaskrifstofanna þriggja bætist svo nýtt áætlunarflug Icelandair til Tenerife. Systurfélag flugfélagsins, ferðaskrifstofan Vita, selur af þeim sökum ekki lengur staka flugmiða til spænsku eyjunnar heldur aðeins hefðbundnar pakkaferðir.

Neytendur fá svo bráðlega enn fleiri valkosti því Play setur líka stefnuna á áætlunarflug til Tenerife líkt og fram kom í viðtali Víglínunnar á Stöð 2 við Birgi Jónsson, forstjóra Play, sl. sunnudag.

Þannig að þrátt fyrir brotthvarf Wow og síðar Norwegian þá verða flugsamgöngurnar milli Íslands og Tenerife áfram tíðar.