Fella niður fyrstu ferðirnar til Barcelona

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. Mynd: Lucrezia Carnelos / Unsplash

Um miðjan mars tilkynnti Icelandair að áætlunarflugi til Barcelona hefði verið bætt við sumaráætlunina. Þotur félagsins flugu síðast til borgarinnar sumarið 2017.

Ætlunin var að fljúga vikulega til Barcelona í sumar og fyrsta ferð auglýst þann 12. júní. Sú brottför er ekki lengur bókanleg á heimasíðu félagsins og það sama má segja um ferðirnar næstu tvo laugardaga á eftir, 19. og 26. júní.

Að öllu óbreyttu verður því fyrsta ferð Icelandair til Barcelona þann 3. júlí nk.

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling flýgur aftur á móti þessa dagana milli Íslands og Barcelona tvisvar sinnum í viku. Og þann 16. júlí er á dagskrá jómfrúarferð Play til borgarinnar.

Líkt og fram kom hér á síðum Túrista fyrir helgi þá hefur Icelandair skorið niður flugáætlun sína í júní um meira en helming frá því sem stefnt var að í vor. Ferðirnar til Barcelona í næsta mánuði eru hluti af þeim niðurskurði.