Fjármálaráðherra Þýskalands kallar eftir dýrari flugmiðum

Þýskir ráðamenn vilja fá fleiri til að ferðast innanlands með lest en í flugi. MYND: DEUTSCHE BAHN

Þýsk stjórnvöld vinna að því að setja lágmarksverð á flugfargjöld í von um að draga úr flugferðum á milli borga þar sem umhverfisvænni samgöngur eru í boði.

Þetta kom fram í viðtali Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands og kanslaraefni Jafnaðarmanna, á Pro7 í síðustu viku. Þar sagði Scholz að engin flugferð ætti í raun að geta verið ódýrari en sem nemur flugvallargjöldum og öðrum kostnaði sem tilfellur. Nefndi hann í því samhengi 50 evrur sem lægsta mögulega fargjaldið en sú upphæð nemur um 7.600 íslenskum krónum.

Í Þýskalandi hefur það verið raunin að oft er ódýrara að fljúga á milli þýskra borga en að taka lest.