Fljúga aftur til New York eftir fjögurra mánaða hlé

newyork loft Troy Jarrell
Þota Icelandair lendir í New York seinna í dag. Í fyrsta sinn síðan 3. janúar. MYND: TROY JARRELL / UNSPLASH

Nú í heimsfaraldrinum hefur Icelandair haldið úti reglulegum ferðum til Boston en flug til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum hefur að mestu legið niðri í vetur. Seinnipartinn í dag er hins vegar á dagskrá fyrsta ferð Icelandair til JFK flugvallar í New York síðan 3. janúar sl.

Í flugferðina verður breiðþotan TF-ISO notuð en sú flaug í morgun til Amsterdam og er væntanlega aftur til Keflavíkurflugvallar um kaffileytið. Í þotunni eru sæti fyrir 265 farþega og samkvæmt bókunarsíðu Icelandair eru 19 sæti frátekin í ferðinni til New York á eftir.

Á heimferðinni á morgun, frá JFK flugvelli til Keflavíkurflugvelli, eru aftur á móti 52 sæti frátekin. En gera má ráð fyrir að farþegarnir verði aðeins fleiri því þeir sem ekki greiða sérstaklega fyrir val á sætum fá plássi um borð úthlutað við innritun.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá hóf bandaríska flugfélagið Delta að fljúga til Íslands á ný um nýliðna helgi. Og ríflega fimm hundruð farþegar voru bókaðir í fyrstu fjórar ferðirnar hingað til lands.