Flugfreyjur og -þjónar eru ekki flugliðar

Hér eru tveir flugverjar að störfum en flugliðarnir um borð sitja við stýrið. MYND: NORWEGIAN

Í hinum umtalaða kjarasamningi Play flugfélagsins við Íslenska flugstéttafélagið, um kaup og skyldur flugfreyja og flugþjóna, er ávallt talað um samning við flugliða.

Þar segir meðal annars í inngangi að „verkefni flugliða eru fyrst og fremst að gæta öryggis farþega Play en einnig að inna af hendi þau störf, sem nauðsynleg eru til þess að sem best megi fara um farþegana og gera þeim ferðina sem ánægjulegasta. Flugliðar annast alla framreiðslu og sölu varnings í flugvélum Play.“

Í þessari klausu er í raun verið að skylda flugstjóra og flugmenn Play til að sjá um þjónustu um borð. Því samkvæmt reglugerð Flugmálastjórnar, nú Samgöngustofu, þá er flugliði sá sem er handhafi „fullgilds skírteinis og falið er starf sem nauðsynlegt er við stjórn og starfrækslu loftfars meðan á fartíma stendur.“

Í Íslenskri nútímaorðabók segir jafnframt að flugliði sé „maður með réttindi til að gegna starfi í stjórnklefa flugvélar og hefur flugliðaskírteini.“

Orðabókin mælist til þess að orðið flugverji, samanber skipverji, sé notað um bæði flugliða og öryggis- og þjónustuliða. Síðarnefnda heitið á þá við um flugfreyjur – og þjóna. Það má því ljóst vera að í hinum umdeilda kjarasamningi er rangt íslenskt heiti notað yfir þann hóp starfsmanna sem samningurinn nær til.

Til að gæta allrar sanngirni þá er mjög algengt að orðið flugliði sé notað um flugfreyjur. Um það eru fjöldamörg dæmi í íslenskum fjölmiðlum og sérstaklega síðustu daga í tengslum við samningi Play við flugfreyjur og -þjóna.

Og þau 12 ár sem Túristi hefur komið út þá hefur undirritaður reglulega notað orðið flugliði yfir flugfreyjur- og þjóna. Því verður hætt hér með.

Þess má geta í lokin að orðið flugliði kemur ekki fyrir í kjarasamningi Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands.