Flugmiðar til Alicante og Tenerife seljast best

Auk Play þá bjóða stærstu ferðaskrifstofur landsins upp á reglulegar ferðir til Alicante næstu mánuði. Icelandair býður hins vegar ekki upp á áætlunarflug til spænsku borgarinnar. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Nú er vika liðin frá því að Play hóf sölu á farmiðum og hefur salan verið lífleg. Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg við Birgi Jónsson, forstjóra Play. Hann segir að flestar bókanir hafi komið frá Íslendingum á leið til Tenerife og Alicante á Spáni.

Birgir bætir því við að eftirspurnin frá erlendum ferðamönnum hafi verið meiri en búist var við í fyrstu.

Líkt og áður hefur komið fram þá er jómfrúarferð Play á dagskrá þann 24. júní og þá verður flogið til Stansted flugvallar í London. Félagið gerir svo ráð fyrir áætlunarferðum til sjö borga í heildina og á öllum flugleiðum verður Play í samkeppni við önnur flugfélög eða íslenskar ferðaskrifstofur.